Bloggið mitt

Ég sagði í fyrstu bloggfærslunni minni að ég væri anti-bloggari. Það fer ekki á milli mála að það mun rétt vera, enda hefur mér einungis tekist að bæta við einni færslu síðan þá, en þetta er sú þriðja. Hins vegar hef ég verið dugleg í kommentakerfum bloggheimsins þar sem mér virðist líka betur að lesa annarra blogg en skrifa mitt eigið. Ástæðan er kannski sú að ég veit ekkert um hvað ég á að skrifa, og svo er þetta auðvitað óvani líka. Ég hálföfunda þá sem eru duglegir að skrifa reglulega og hafa alltaf eitthvað athyglisvert fram að færa. Núna langar mig þó að bæta við einni færslu um mál sem er mér einstaklega hugleikið - torrent og SMÁÍS (ég fæ verki við að þurfa að skrifa þetta með hástöfum!). Reyndar hef ég hugsað mér að skrifa meira um þetta því ég hef sjaldan orðið eins hneyksluð og þessa dagana.

Mér finnst ótrúleg sú fréttamennska sem vaðið hefur uppi í fjölmiðlum síðustu vikurnar. Þar fer fremstur í flokki Snæbjörn Steingrímsson, framkvæmdastjóri SMÁÍSs. Því miður virðist honum ekki mjög annt um sannleikann og fer iðulega með ýkjur og rangt mál. Þar að auki virðist hann hafa greiðan aðgang að nánast öllum fjölmiðlum, og þá sér í lagi þeim sem eru í eigu 365 miðla (en ekki hvað?). Hann hefur séð þessum miðlum fyrir missönnum „fréttum“ af Istorrent-málinu og það jafnvel áður en forsvarsmaður Istorrents fær að heyra um það sem Snæbjörn hefur fram að færa.

Það er merkilegt í sjálfu sér hvernig allur fréttaflutningur hefur verið. Aldrei nokkurn tíma hef ég séð eins einhliða fréttir af neinu málefni eins og Istorrent-málinu. Það er svo augljóst, þegar farið er nokkrar vikur aftur í tímann, að þetta hefur verið tilgangur Snæbjörns og félaga frá upphafi - að skapa mikla hræðslu meðal almennings og torrent-notenda. Áróður hans hefst nokkrum vikum áður en hann fær lögbann sett á Istorrent. Ég kalla þetta hræðsluáróður, enda er þetta ekkert annað þegar eingöngu hans hlið kemur fram og eingöngu er rætt við hann í fjölmiðlum - fyrir utan eitt skipti sem ég man eftir að Svavar Kjarrval fékk að koma broti af sjónarmiðum sínum á framfæri. Þar fannst mér meira að segja ekki hlutlaus fréttamaður á ferð því að mínu mati leiddi hann þessar stuttu umræður á þann hátt að Snæbjörn varð góði gæinn - eins og alltaf. Reyndar hef ég séð, að ég held, tvær blaðafréttir þar sem Svavar fær að tjá sig örlítið en ef ég man rétt var einungis rætt um lögbannskröfuna sem slíka og viðbrögð hans við henni - ekki um málefni Istorrents-vefsins sjálfs.

Ég viðurkenni að ég er stolt af Íslendingum fyrir að ætla að standa saman einu sinni. Hvort sem torrent-vefurinn er löglegur eða ekki - sem dómstólar eiga eftir að skera úr um - þá finnst mér fáránlegt að þessi samtök skuli ekki skella sér inn á 21. öldina og uppgötva tæknina. Merkilegt að SMÁÍS-menn skuli yfirleitt halda úti heimasíðu - maður skyldi nefnilega ætla að þeir hefðu ekki séð sér hag í því að nýta sér tölvutæknina ennþá. Þeir bölsótast út í allt og alla þegar þeir gætu samið fyrir hönd umbjóðenda sinna og gætu þá listamenn í fyrsta sinn stórgrætt á því sem þeir skapa. Það er því miður ljóst að þeir ætla að halda sig á 20. öldinni eitthvað áfram. Hvernig stendur á því að ekkert heyrist frá listafólkinu sjálfu? Hvað vill það? Vill það virkilega að Snæbjörn haldi áfram að „verja“ mál þeirra með ýkjum, offorsi og látum? Ég hef enga trú á því heldur er ég nokk viss um að þaggað hefur verið niður í þeim og þeir beðnir um að tjá sig ekki um þessi mál. Ég ætla samt sem áður að skora á þá, sem eru meðlimir í þeim samtökum sem að lögbannskröfunni standa, að stíga fram og segja hvað þeim virkilega finnst um framgöngu Snæbjörns og það sem hann er að gera fyrir hönd þeirra.

Ég læt þetta gott heita núna, en skrifa meira síðar í dag því ég er hvergi nærri hætt.
Látið ykkur líða vel.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Túrilla

Þeir eru heldur ekkert að gæta hagsmuna höfunda og hafa örugglega ekki gert síðan á fyrsta ári eftir stofnun, meðan hugsjónin réð enn ríkjum. Þá tók sterk gróðahyggja við sem hefur haldist þar síðan, eins og sést á pistli Dr. Gunna.

Ég hvet alla sem vettlingi geta valdið til að kaupa allt sem íslenskir listamenn gefa út á eigin vegum, hvort sem efnið höfðar til þeirra eða ekki. Það má þá alltaf gefa það í jólagjöf eða afmælisgjöf - eða bara tækifærisgjöf. Það er varla vandamál að finna tilefni. Flestir vinir mínir gera þetta af hugsjón og við höfum hugsað okkur að halda henni á lofti næstu misserin. Mér finnst það skylda okkar að styðja við bakið á þeim listamönnum sem hafa það mikið vit í kollinum að treysta neytendum til að borga fyrir það efni sem þeim líkar. Meðan þeir eru enn svona fáir sem raun ber vitni þá fer enginn á hausinn af því að styrkja þá. Allir hinir listamennirnir þurfa hvatningu til að feta í fótspor þeirra sem þegar hafa stigið skrefið.

Túrilla, 28.11.2007 kl. 17:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Túrilla

Höfundur

Túrilla
Túrilla
Höfundur er léttgeggjuð húsmóðir... og því miður alveg einstaklega lélegur bloggari.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband