4.12.2007 | 17:44
Karlmenn og kökur
Er það hreinlega innbyggt í þetta karlkyn að byrja að væla um smákökur áður en nóvember er liðinn? Það er nánast ólíft á heimilinu fyrir þessu væli: Baka núna, baka í kvöld, baka á morgun, baka um helgina. Ef ég voga mér að nefna að þeir geti bara bakað sjálfir ef þeir geti ekki beðið fram í desember þá verða þeir 100% öryrkjar á sekúndubroti! Svo er ekki nóg að baka eina tegund - nei, það þarf helst að baka margar og margfalda uppskriftirnar í hvert skipti. Þegar ég held svo að jólabakstri sé lokið þá byrjar sama vælið upp á nýtt því það er búið að sporðrenna öllu sem bakað hafði verið. Ég hef reynt að fela kökudunkana en alltaf finnast þeir, enda er plássið takmarkað innan íbúðar. Meira að segja faldi ég þá einhvern tíma í skottinu á bílnum mínum - bíl sem ég nota ein. Nei, ekki dugði það því helv. kökurnar fundust þar! Ég er hætt að fela þær, það tekur því ekki. Hvernig haldið þið að það sé að búa við þetta?
Nú er ég búin að baka þrjár tegundir, þrefalda uppskrift af hverri. Allir kökudunkar eru tómir og vælið er hafið á ný. Ég er alin upp við að smákökurnar voru bara borðaðar yfir hátíðirnar, ekki fyrir jólin. Þessu eru mínir menn ekki sammála og hafa aldrei verið. Því upphefjast þræturnar árlega þegar líða fer á nóvember. Því fyrr sem farið er að auglýsa jólin, því fyrr byrjar kórinn á þessum bæ.
Í gær datt mér í hug að plata þá og kaupa loftkökurnar í stað þess að baka þær, enda er það með eindæmum leiðinlegt verk. Ég fór í Krónuna á meðan karlpeningurinn var í vinnu og skóla. Þegar þeir komu heim var ég voðalega montin og sagðist hafa bakað á meðan þeir voru ekki heima. Auðvitað réðust þeir á dunkinn með það sama á meðan ég horfði á með hjartað í brókunum: Kæmist upp um mig eða slyppi ég með skrekkinn? Það var ekki ein kaka farin ofan í þá þegar þeir byrjuðu að kvarta: Þessar kökur eru ekki eins og þær sem þú bakar alltaf. Ég sagðist hafa týnt uppskriftinni minni og þurft að finna nýja á netinu. Af einhverjum undarlegum ástæðum var mér ekki trúað. Þeir lögðu upp í rannsóknarleiðangur, kíktu í uppþvottavélina til að finna það sem ég hafði notað, skoðuðu í ruslafötuna til að athuga hvort ég hefði hent umbúðum og opnuðu skúffur og skápa til að finna einhver sönnunargögn. Þeir fundu ekkert, enda hafði ég tekið hreinu bakstursáhöldin og sett þau í uppþvottavélina. Ég var aldeilis ánægð með mig, mér tókst að blekkja þá og nú sá ég fram á að geta keypt fleiri tegundir og vera laus við heimabakstur. Þá kom áfallið: Þeir neituðu að borða loftkökurnar, sögðu að þær væru vondar. Síðan ákváðu þeir að uppskriftin gæti ekki verið algjörlega týnd og lögðust í leit. Uppskriftin fannst að lokum þar sem ég hafði falið hana - undir stafla af dósamat.
Hér eftir kemst ég ekki upp með neitt múður, þeir vilja hjálpa til við baksturinn og ég má ekki baka á meðan þeir eru ekki heima. Ég er sátt, nú læra þeir að baka og á næstu jólum geta þeir gert þetta sjálfir! Fátt er svo með öllu illt...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
3.12.2007 | 06:50
Samsæriskenning
Ég er búin að hlæja mig máttlausa við lestur þessa pistils sem ég fann á Huga - höfundur ber notandanafnið MisterBong og er þetta afrit af texta hans:
"Ég hef verið að fylgjast með forstjóra Smáís og ég er kominn með samsæriskenningu sem ég tel að sé tiltörulega rétt. Hún byggist ekki á einhverju sem kallast rök eða sannanir, heldur byggi ég hana á alls engu.
Samsæriskenningin byrjar þegar ungur maður að nafni Hallgrímur kærir í nafni Smáís einhverja gaura sem eru að selja SKY áskriftir í óþökk þeirra. Eftir hatramma baráttu við einhverja gaura tapar Smáís málinu.
Hérna er mynd af honum Hallgrími tekin í september, ósköp eðlilegur maður, hraustur og lítur út fyrir að fari í líkamsrækt endrum og eins.
http://www.visir.is/apps/pbcsi.dll/bilde?Site=XZ&Date=20050913&Category=FRETTIR01&ArtNo=509130373&Ref=AR&NoBorder
Hallgrímur, auðvitað eyðilagður að hafa tapað málinu, verður örvæntingafullur. Ekki nóg með það að hann hafi tapað málinu þá eru félagsmenn Smáís ekki sáttir við að hann hafi tapað peningum félagsins. Segja við Hallgrím að hann skuli redda þeim mörgum milljónum, annars verður farið með hann bak við hlöðu og hann skotinn!
Hallgrímur reynir allt sem hann getur til að borga upp þennan missi verður ráðþrota. En þá kemur til hans enginn annar en djöfullinn sem gerir við hann samning um að hann skuli verða mesti og öflugasti vælukjói og suðari sem upp hefur verið á jörðinni!
Við þennan samning dekkist húðin á Hallgrími, á hann vex hár (sem hefur ekki gert í mörg ár) og ásýnd hans verður ófrýnileg og veldur óhug eins og sést á þessari mynd tekin í október.
http://www.mbl.is/frimg/4/42/442388A.jpg
Hallgrímur, orðinn geðveikur af þessu nýja afli sem hefur tekið sér bólfestu í honum, breytir nafninu sínu í Snæbjörn (í höfuðið á ísbirninum, sem er eina dýrið sem hefur ánægju af því að drepa, misþyrma og borða litla fallega seli). Byrjar Snæbjörn að nöldra í fjölmiðlum af afli og ræðst á stærsta vígi netverja, torrent.is.
Í margar vikur vælir og nöldrar Snæbjörn í fjölmiðlum eins og eldgömul femínistatrunta á túr, og með tímanum vex kraftur Snæbjörns, sem gerir það að verkum að húð hans verður fölari, hár hans dekkist og verður svart sem nóttin og andlit hans ennþá ófrýnilegra, eins og sést á þessari mynd tekin í nóvember.
http://visir.is/apps/pbcsi.dll/bilde?Site=XZ&Date=20071127&Category=FRETTIR01&ArtNo=71127104&Ref=AR&NoBorder
Með eintómu væli og nöldurhætti tekst honum að knésetja torrent.is tímabundið og kærir meistara Svavar fyrir eitthvað helvítis bull og vitleysu, lofandi forstjórum Smáís milljörðum í skaðabætur.
Með þessum nýju kröftum er honum ekkert heilagt: Smais.is er orðinn vefsíða viðbjóðs og hrottalegheitar þar sem honum tekst að skrifa á heimasíðuna sína allan þann viðbjóð sem vellur upp úr honum og fólk gleypir við því! Skrifar að netverjar séu feitir tölvunördar með bremsufar buxunum og eitthvað helvítis bull, tengir niðurhal myndefnis við barnaklám, kynlíf með dýrum og annars konar viðbjóð, er með bull skoðanakannanir sem byggjast ekki á svörum þáttakenda og kemst upp með það. Skiljanlegt, gaurinn er orðinn það ófrýnilegur að það þorir enginn að mæla einhverju á móti honum!
Núna þegar hann er orðinn þetta öflugur á hann eftir að breytast ennþá meir og verða ennþá öflugari, en hér fyrir neðan er hlekkur af tölvugerðri mynd sem sýnir hvernig hann mun líta út eftir nokkrar vikur:
http://weblogs.newsday.com/entertainment/tv/blog/palpatine.jpg
Tel ég að þegar þetta útlit verður komið á Snæbjörn verður hann orðinn það öflugur að enginn nær að stöðva hann! Nær örugglega að nöldra það mikið að lögreglan byrjar að handtaka fólk fyrir að vera með mp3 lög inn á tölvunni, nær að setja ofurskatta á alltsaman til að borga upp þjófnað og byrjar aftökur á deilendum myndefnis
Vona bara að einhver geri eitthvað áður en það gerist, en ef samsæriskenningin mín verður að veruleika megi Guð hjálpa okkur öllum."
Pistilinn finnið þið hér (ásamt athugasemdum):
http://www.hugi.is/deiglan/articles.php?page=view&contentId=5443614
Þetta er með því betra sem ég hef lesið um þetta leiðindamál,
Dæmi svo hver fyrir sig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.12.2007 | 21:21
Hrekkjusvín fara á kostum
Mikið rosalega hef ég gaman af svona fólki:
http://www.visir.is/article/20071202/LIFID01/112020103
Ég væri til í að vera í góðum hrekkjusvínahópi, enda ofboðslegur púki sjálf.
Hvernig væri að fleiri segðu skemmtilegar sögur af ýmsum hrekkjum sem þeir hafa gert eða lent í?
Sjálf þori ég ekki að segja frá neinu strax svo ég skora á ykkur hin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.12.2007 | 10:47
Töpuð barátta
Nú hafa tvær nýjar torrent-síður litið dagsins ljós - hýstar í fleiru en einu landi þannig að ef þeim er lokað á einum stað þá halda þær bara áfram starfsemi í hinum löndunum.
Ég held að SMÁÍS geti gefist upp strax. Á meðan Istorrent var uppi var þó hægt að fylgjast með öllu en núna spretta síðurnar upp eins og gorkúlur. Þetta er fyrirfram töpuð barátta hjá þeim og mér sýnist að þeir hefðu betur setið heima en af stað farið. Vonandi standa þessar síður af sér óveðrið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.12.2007 | 07:28
Baggalútur klikkar aldrei
Ég bara verð að leyfa ykkur að sjá snilldarpistil af síðu Baggalúts:
"Lögregla réðst í dag til inngöngu í öll útibú Landsbókasafns eftir að henni bárust upplýsingar um að þar innandyra færu fram umfangsmikil ólögleg skráarskipti.
Í safninu og útibúum þess er talið að megi finna u.þ.b. 900 þúsund bindi bóka, tímarita og annarra gagna. Mikill meirihluti þeirra er erlent efni sem að sjálfsögðu er allt meira eða minna í höfundarrétti.
Svo virðist sem fólk hafi hingað til getað skráð sig inn í sérstakt kerfi gegn vægri greiðslu og sótt sér umrædd gögn, án endurgjalds. Skipta notendur tugþúsundum, allt frá grunnskólabörnum upp í ellilífeyrisþega.
Þá hefur lögregla lokað tölvukerfinu alræmda, Gegni, en þar hafa bókasafnsverðir og aðrir siðblindir glæpamenn getað nálgast leiðbeiningar um það hvar efnið er að finna."
http://baggalutur.is/index.php?id=3981
Það er yndislegt þegar fólk getur séð spaugilegu hliðina á annars grátlegu máli.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.11.2007 | 06:27
SMÁÍS með lygar á heimasíðu sinni
Á heimasíðu SMÁÍSs, http://www.smais.is/template25024.asp?PageID=4636, má nú sjá eftirfarandi frétt:
Bittorrentmonster lokað í Hollandi
Í gær var einni af 10 stærstu torrent síðum veraldar lokað í Hollandi og er kominn á flótta milli landa. www.btmon.com var með yfir 1.7M notenda á mánuði þar sem þjófnaður á tónlist, kvikmyndum og hugbúnaði átti sér stað.
Þetta er tilkomið vegna kröfu BREIN, Hollensku rétthafasamtakana, gegn Leaseweb sem er nethýsingarþjónusta, um að lokað yrði á Bittorrentmonster tafarlaust og upplýsingar um eigendur þess uppgefnar.
Leaseweb hefur nú þegar látið eftir öllum þessum kröfum og eigendur Bittorrentmonster bíður nú skaðabótakrafa frá rétthöfum.Síðan flúði til Þýskalands þar sem uppitíminn var mjög stuttur og eru rétthafar í öðrum löndum í biðstöðu með að lögsækja skildi þessi síða reyna að opna í þeirra landi.
Það er mikill flótti núna á þjófasíðum frá Hollandi og fagna Hollendingar því að vera ekki lengur þekktir sem paradís fyrir þjófa og annað hyski. Stutt er síðan Demonoid flúði Holland til Kanada þar sem þeim var endanlega lokað.
Slóð á fréttina: http://www.smais.is/template25024.asp?pageid=4707&newsid=9033
Þetta væri kannski ekki merkilegt nema fyrir þær sakir að þessi síða er í fullu fjöri ennþá, eða var það þegar ég prófaði að fara inn á hana áðan. Í fréttinni er gefin upp slóð síðuna og hlýtur Snæbjörn þá að vera að stuðla að því að fólk sæki höfundarréttarvarið efni. Það hlýtur að mega álykta sem svo.
Hvenær ætla þessir menn að skilja að við erum ekki heilalausir hálfvitar? Það er ekki hægt að mata okkur á endalausum hræðsluáróðri, eins og forsíða þessara undarlegu samtaka sýnir svo glögglega. Þar eru eintómar fréttir af því að hinum og þessum síðum hafi verið lokað. Hversu mikið ætli sé satt af því sem birtist á heimasíðu SMÁÍSs? Það er ekki skrýtið að maður efist þegar þetta er raunin, svo ekki sé nú talað um allt sem Snæbjörn hefur látið út úr sér í fjölmiðlum síðustu vikur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.11.2007 | 06:11
Bloggið mitt
Ég sagði í fyrstu bloggfærslunni minni að ég væri anti-bloggari. Það fer ekki á milli mála að það mun rétt vera, enda hefur mér einungis tekist að bæta við einni færslu síðan þá, en þetta er sú þriðja. Hins vegar hef ég verið dugleg í kommentakerfum bloggheimsins þar sem mér virðist líka betur að lesa annarra blogg en skrifa mitt eigið. Ástæðan er kannski sú að ég veit ekkert um hvað ég á að skrifa, og svo er þetta auðvitað óvani líka. Ég hálföfunda þá sem eru duglegir að skrifa reglulega og hafa alltaf eitthvað athyglisvert fram að færa. Núna langar mig þó að bæta við einni færslu um mál sem er mér einstaklega hugleikið - torrent og SMÁÍS (ég fæ verki við að þurfa að skrifa þetta með hástöfum!). Reyndar hef ég hugsað mér að skrifa meira um þetta því ég hef sjaldan orðið eins hneyksluð og þessa dagana.
Mér finnst ótrúleg sú fréttamennska sem vaðið hefur uppi í fjölmiðlum síðustu vikurnar. Þar fer fremstur í flokki Snæbjörn Steingrímsson, framkvæmdastjóri SMÁÍSs. Því miður virðist honum ekki mjög annt um sannleikann og fer iðulega með ýkjur og rangt mál. Þar að auki virðist hann hafa greiðan aðgang að nánast öllum fjölmiðlum, og þá sér í lagi þeim sem eru í eigu 365 miðla (en ekki hvað?). Hann hefur séð þessum miðlum fyrir missönnum fréttum af Istorrent-málinu og það jafnvel áður en forsvarsmaður Istorrents fær að heyra um það sem Snæbjörn hefur fram að færa.
Það er merkilegt í sjálfu sér hvernig allur fréttaflutningur hefur verið. Aldrei nokkurn tíma hef ég séð eins einhliða fréttir af neinu málefni eins og Istorrent-málinu. Það er svo augljóst, þegar farið er nokkrar vikur aftur í tímann, að þetta hefur verið tilgangur Snæbjörns og félaga frá upphafi - að skapa mikla hræðslu meðal almennings og torrent-notenda. Áróður hans hefst nokkrum vikum áður en hann fær lögbann sett á Istorrent. Ég kalla þetta hræðsluáróður, enda er þetta ekkert annað þegar eingöngu hans hlið kemur fram og eingöngu er rætt við hann í fjölmiðlum - fyrir utan eitt skipti sem ég man eftir að Svavar Kjarrval fékk að koma broti af sjónarmiðum sínum á framfæri. Þar fannst mér meira að segja ekki hlutlaus fréttamaður á ferð því að mínu mati leiddi hann þessar stuttu umræður á þann hátt að Snæbjörn varð góði gæinn - eins og alltaf. Reyndar hef ég séð, að ég held, tvær blaðafréttir þar sem Svavar fær að tjá sig örlítið en ef ég man rétt var einungis rætt um lögbannskröfuna sem slíka og viðbrögð hans við henni - ekki um málefni Istorrents-vefsins sjálfs.
Ég viðurkenni að ég er stolt af Íslendingum fyrir að ætla að standa saman einu sinni. Hvort sem torrent-vefurinn er löglegur eða ekki - sem dómstólar eiga eftir að skera úr um - þá finnst mér fáránlegt að þessi samtök skuli ekki skella sér inn á 21. öldina og uppgötva tæknina. Merkilegt að SMÁÍS-menn skuli yfirleitt halda úti heimasíðu - maður skyldi nefnilega ætla að þeir hefðu ekki séð sér hag í því að nýta sér tölvutæknina ennþá. Þeir bölsótast út í allt og alla þegar þeir gætu samið fyrir hönd umbjóðenda sinna og gætu þá listamenn í fyrsta sinn stórgrætt á því sem þeir skapa. Það er því miður ljóst að þeir ætla að halda sig á 20. öldinni eitthvað áfram. Hvernig stendur á því að ekkert heyrist frá listafólkinu sjálfu? Hvað vill það? Vill það virkilega að Snæbjörn haldi áfram að verja mál þeirra með ýkjum, offorsi og látum? Ég hef enga trú á því heldur er ég nokk viss um að þaggað hefur verið niður í þeim og þeir beðnir um að tjá sig ekki um þessi mál. Ég ætla samt sem áður að skora á þá, sem eru meðlimir í þeim samtökum sem að lögbannskröfunni standa, að stíga fram og segja hvað þeim virkilega finnst um framgöngu Snæbjörns og það sem hann er að gera fyrir hönd þeirra.
Ég læt þetta gott heita núna, en skrifa meira síðar í dag því ég er hvergi nærri hætt.
Látið ykkur líða vel.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.2.2007 | 22:40
Ef væri ég api...
Þá hvað? Jú, mig hefur lengi langað til að stúdera þessi Feng Shui fræði, og keypti mér reyndar eina bók fyrir margt löngu. Það dugði þó ekki til þess að ég yrði sjálfbjarga í þessum flóknu fræðum. Þess vegna ákvað ég að þegar lottóvinningurinn kæmi skyldi ég fá sérfræðing til að innrétta nýja einbýlishúsið mitt, sem ég auðvitað myndi staðgreiða með hluta af lottópeningunum.
Það er skemmst frá því að segja að enn hefur enginn lottóvinningur skilað sér á bankareikning minn og enn er allt í óreiðu á heimili mínu, sem er langt frá því að vera einbýlishús. Það er allt Feng Shui leysi að kenna að ástalífið gengur illa, peningamálin eru í molum, krakkarnir eru snarvitlausir, kallinn eigi skárri og auðvitað líka að lottóvinninginn vantar! Nú er það spurningin hvort kemur á undan; hænan eða eggið. Fengi ég að vita það fengi ég kannski Feng Shui fræðinginn til mín á undan lottóvinningnum. Einnig yrði fengur mikill að fá eins og einn happdrættisvinning ef svo bæri undir. Happdrættispeningarnir gætu orðið innborgun til fræðingsins, fengist hann til að koma til mín.
Nú hef ég fengið nóg og ætla að hætta að raka á mér lappirnar og leyfa öllum líkamshárum að vaxa óáreittum. Ef til vill verð ég einhvern tíma api og fæ ókeypis Feng Shui þjónustu. Það er augljóslega ekki nóg að ég hagi mér sem api, ég verð einnig að líta út sem slíkur.
Þið fáið að fylgjast með gangi mála
Sérfræðingur í feng shui fenginn til að innrétta fyrir apa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 29.11.2007 kl. 07:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.2.2007 | 09:01
Kraftaverk
Ég vona að það sé ekki eins leiðinlegt að blogga og ég held að það sé því annars endist ég ekkert í þessu. Mig langar að byrja á því að biðjast afsökunar á útliti síðunnar, en þar sem ég er alls óreyndur bloggari þá kann ég ekkert á þá fítusa sem hér bjóðast. Ég kann ekki að setja inn tengla eða slóðir eða hvað þetta kallast, hvað þá að ég eigi vini. Ég þekki bara einn sem bloggar hér og ekki þori ég að setja hann sem vin því ekki er víst að hann vilji vera við mig kenndur
Ég á ekki von á öðru en að ég bloggi mest um fréttir sem mér finnast áhugaverðar, enda vita allir að líf okkar húsmæðra er einstaklega innantómt og viðburðasnautt. Mér þykir ólíklegt að margir nenni að lesa um klukkan hvað ég skúraði gólfin eða hvað ég tók út úr frystinum til að hafa í kvöldmatinn.
Þetta kemur allt í ljós á næstu dögum. Það verður spennandi að sjá hvort hinn mikli anti-bloggari stendur undir nafni eða kastar frá sér stoltinu og tekur þátt af fullum krafti.
Með blendinni bloggkveðju,
Túrilla.
Bloggar | Breytt 29.11.2007 kl. 07:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Túrilla
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar