Karlmenn og kökur

Er það hreinlega innbyggt í þetta karlkyn að byrja að væla um smákökur áður en nóvember er liðinn? Það er nánast ólíft á heimilinu fyrir þessu væli: „Baka núna, baka í kvöld, baka á morgun, baka um helgina“. Ef ég voga mér að nefna að þeir geti bara bakað sjálfir ef þeir geti ekki beðið fram í desember þá verða þeir 100% öryrkjar á sekúndubroti! Svo er ekki nóg að baka eina tegund - nei, það þarf helst að baka margar og margfalda uppskriftirnar í hvert skipti. Þegar ég held svo að jólabakstri sé lokið þá byrjar sama vælið upp á nýtt því það er búið að sporðrenna öllu sem bakað hafði verið. Ég hef reynt að fela kökudunkana en alltaf finnast þeir, enda er plássið takmarkað innan íbúðar. Meira að segja faldi ég þá einhvern tíma í skottinu á bílnum mínum - bíl sem ég nota ein. Nei, ekki dugði það því helv. kökurnar fundust þar! Ég er hætt að fela þær, það tekur því ekki. Hvernig haldið þið að það sé að búa við þetta?

Nú er ég búin að baka þrjár tegundir, þrefalda uppskrift af hverri. Allir kökudunkar eru tómir og vælið er hafið á ný. Ég er alin upp við að smákökurnar voru bara borðaðar yfir hátíðirnar, ekki fyrir jólin. Þessu eru mínir menn ekki sammála og hafa aldrei verið. Því upphefjast þræturnar árlega þegar líða fer á nóvember. Því fyrr sem farið er að auglýsa jólin, því fyrr byrjar kórinn á þessum bæ.

Í gær datt mér í hug að plata þá og kaupa loftkökurnar í stað þess að baka þær, enda er það með eindæmum leiðinlegt verk. Ég fór í Krónuna á meðan karlpeningurinn var í vinnu og skóla. Þegar þeir komu heim var ég voðalega montin og sagðist hafa bakað á meðan þeir voru ekki heima. Auðvitað réðust þeir á dunkinn með það sama á meðan ég horfði á með hjartað í brókunum: Kæmist upp um mig eða slyppi ég með skrekkinn? Það var ekki ein kaka farin ofan í þá þegar þeir byrjuðu að kvarta: „Þessar kökur eru ekki eins og þær sem þú bakar alltaf.“ Ég sagðist hafa týnt uppskriftinni minni og þurft að finna nýja á netinu. Af einhverjum undarlegum ástæðum var mér ekki trúað. Þeir lögðu upp í rannsóknarleiðangur, kíktu í uppþvottavélina til að finna það sem ég hafði notað, skoðuðu í ruslafötuna til að athuga hvort ég hefði hent umbúðum og opnuðu skúffur og skápa til að finna einhver sönnunargögn. Þeir fundu ekkert, enda hafði ég tekið hreinu bakstursáhöldin og sett þau í uppþvottavélina. Ég var aldeilis ánægð með mig, mér tókst að blekkja þá og nú sá ég fram á að geta keypt fleiri tegundir og vera laus við heimabakstur. Þá kom áfallið: Þeir neituðu að borða loftkökurnar, sögðu að þær væru vondar. Síðan ákváðu þeir að uppskriftin gæti ekki verið algjörlega týnd og lögðust í leit. Uppskriftin fannst að lokum þar sem ég hafði falið hana - undir stafla af dósamat.

Hér eftir kemst ég ekki upp með neitt múður, þeir vilja hjálpa til við baksturinn og ég má ekki baka á meðan þeir eru ekki heima. Ég er sátt, nú læra þeir að baka og á næstu jólum geta þeir gert þetta sjálfir! Fátt er svo með öllu illt... Happy


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Túrilla

Það hlýtur nú að vera hægt að bjarga því. Hvert er símanúmerið hennar?
Annars gott að vita að þú ert einn af vælukjóunum sem vilja eta smákökur allan desember!

Túrilla, 5.12.2007 kl. 10:28

2 Smámynd: Ævar Eiður

Viltu giftast mér Túrilla ?

Ævar Eiður, 5.12.2007 kl. 21:53

3 Smámynd: Túrilla

Þar sem ég hef aldrei fengið bónorð opinberlega er mér bæði ljúft og skylt að svara þér játandi.
Þó vakna spurningar sem ég þarf svör við:

Á ég að sparka kallinum sem ég er gift núna eða eigum við að fara út í fjölkvæni?
Má bjóða þér að búa hjá okkur eða viltu fá okkur til þín?
Geturðu sent mér fjárhagsyfirlit, t.d. skattskýrslu síðustu þriggja ára, launaseðla síðustu mánaða og upplýsingar um innstæðu á bankareikningum þínum? Upplýsingar um hlutafjáreign? Einnig þarf ég að vita í hvað þú ert að spreða svona dagsdaglega - fer mikið í bjór og slíka vitleysu?

Við reddum svo brúðkaupinu við fyrsta tækifæri
Kannski bara fyrir austan fjall fyrst þú ert orðinn negldur

Túrilla, 9.12.2007 kl. 08:13

4 Smámynd: Eyþór Árnason

Það hefur vantað alúðina í kökurnar úr Krónunni. Svo er gaman að baka saman.

Eyþór Árnason, 12.12.2007 kl. 23:54

5 Smámynd: Bara Steini

Jólajóla snilldar jóla kveðjur til þín og þinna og þakka fyrir það liðna.

Bara Steini, 24.12.2007 kl. 17:39

6 Smámynd: Eyþór Árnason

Gleðileg jól.  Kveðja.

Eyþór Árnason, 25.12.2007 kl. 22:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Túrilla

Höfundur

Túrilla
Túrilla
Höfundur er léttgeggjuð húsmóðir... og því miður alveg einstaklega lélegur bloggari.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 247

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband